Innlent

Hefja vinnslu á ný í Grinda­vík

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þorbjörn í Grindavík heitir eftir samnefndu fjalli í bænum.
Þorbjörn í Grindavík heitir eftir samnefndu fjalli í bænum. Vísir/Vilhelm

Stefnt er að því að byrja að pakka saltfiski á ný í vinnslu sjávarútvegsfyrirtækisins Þorbjarnar í Grindavík í dag og er starfsfólk mætt á staðinn. Fyrirtækjum í Grindavík hefur nú verið auðveldað að hefja starfsemi aftur eftir að reglur um viðveru í bænum voru rýmkaðar.

Frá og með deginum í dag mega íbúar í Grindavík og starfsmenn fyrirtækja vera í bænum frá sjö á morgnana til fimm á daginn en áður opnaði ekki fyrr en klukkan níu.

„Ég á nú von á því að þetta komi sér vel og fyrirtæki geti þá hugað að rekstri og jafnvel hafið rekstur að nýju. Að því gefnu að lagnakerfi séu í lagi,“ segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Sum af fyrirtækjunum í bænum eru að hefja starfsemi á ný. Tómas Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Arctic Saga, sem er sölufyrirtæki Þorbjarnar á Spáni, segir starfsemi landvinnslunnar hjá Þorbirni vera að hefjast á ný í dag. Tíu til fimmtán starfsmenn séu mættir á svæðið og til standi að byrja að pakka saltfisk aftur í dag. Tómas segir fiskinn hafa verið fluttan í geymslu í Þorlákshöfn þegar eftir stóru jarðskjálftana en nú sé búið að flytja fiskinn til baka og vinnslan að hefjast.

Úlfar telur stöðuna þannig að óhætt sé fyrir fólk að vera í bænum yfir daginn.

„Eins og staðan er í augnablikinu þá eru ekki taldar miklar líkur á eldgosi í Grindavík eða í næsta nágrenni við Grindavík og það er nú meðal annars þess vegna sem að þessi rýmkun á sér stað.“

Þá segir hann færri hafi lagt leið sína í bæinn undanfarna daga.

„Þetta hefur nú verið þannig í gær og síðustu daga að það er nú ekki mikil traffík inn í Grindavík en það eru þá helst viðgerðarflokkar eða starfsmenn fyrirtækja sem eru að huga að sínum fyrirtækjum.“


Tengdar fréttir

Opna stuðning­s­torg fyrir Grind­víkinga

Almannavarnir, Rauði krossinn og íslenska fjarheilbrigðisfyrirtækið Kara Connect hefur komið rafrænu stuðningstorgi á laggirnar. Þar geta Grindvíkingar sótt sérhæfðan stuðning og heilbrigðisþjónustu sér að kostnaðarlausu frá og með deginum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×