Körfubolti

Pavel fær fyrr­verandi liðsfélaga sinn á Krókinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jacob Calloway er genginn til liðs við Tindastól.
Jacob Calloway er genginn til liðs við Tindastól. JS

Íslandsmeistarar Tindastóls hafa samið við Jacob Calloway um að leika með liðinu út yfirstandandi tímabil í Subway-deild karla í körfubolta.

Félagið greinir frá félagsskiptunum á samfélagsmiðlum sínum, en Calloway kemur til Tindastóls frá KB Peja í Kósovó þar sem hann var með rétt tæp 15 stig í leik í deild og Evrópukeppni.

Calloway er 203 sentímetra hár framherji sem þekkir vel til þjálfara Stólanna, Pavels Ermolinskij, en þeir léku saman hjá Val tímabilið 2021 til 2022. Saman urðu þeir Íslandsmeistarar með Valsmönnum eftir sigur gegn Tindastóli í úrslitaeinvíginu.

„Við sýndum góða og þarfa þolinmæði við leit að leikamanni sem passar inn í hópinn okkar. Jacob kom óvænt á borðið á síðustu dögum og ég vissi strax að þetta væri maðurinn. Hann er fjölhæfur leikmaður sem verður lítið mál að púsla inn,“ segir Pavel Ermolinskij í tilkynningu Tindastóls.

„Einnig er þetta topp drengur og það skiptir mig máli.

Það gleður mig mjög að liðið okkar er núna allt skipað leikmönnum sem ég sjálfur mundi vilja hafa við hlið mér inn á vellinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×