Innlent

Sló lög­reglu­mann og hafði í hótunum

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Vilhelm

Maður var handtekinn eftir að hafa slegið og haft í hótunum við lögreglumann þegar afskipti voru höfð af manninum þar sem hann truflaði umferð um Sæbraut. 

Í dagbók lögreglu kemur fram að maðurinn hafi verið vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum og hægt verður að taka af honum skýrslu. 

Lögregla var kölluð til á heimili þar sem helst hafði úr súpupotti yfir ungling. Ekki er vitað um alvarleika brunasára. Þá var óskað eftir aðstoð vegna viðskiptavinar á veitingastað sem neitaði að greiða fyrir veitingar. 

Tvær líkamsárásir í miðbænum

Í Kópavogi var tilkynnt um að bifreið hafi verið ekið á kyrrstæða hluti og valdið talsverðu tjóni. Ökumaðurinn, sem grunaður er um akstur undir áhrifum áfengis, var vistaður í fangaklefa. 

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar í verslun í Kópavogi. Vegna ungs aldurs grunaða er málið unnið með foreldrum og barnavernd. 

Önnur verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu snéru flest að ölvunartengdum málum, akstri undir áhrifum og þjófnaði. Tilkynnt var um að minnsta kosti tvær líkamsárásir í miðbænum en ekkert er gefið upp um alvarleika þeirra, en einn var handtekinn í þágu rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×