Innlent

Heimilt að fara inn í Grinda­vík með flutninga­bíla

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Í dag verða heimildir íbúa í Grindavík rýmkaðar til flutninga á munum sínum. Hægt er að fara inn í bæinn frá klukkan 9:00 – 16:00 en þá eiga allir að yfirgefa bæinn.
Í dag verða heimildir íbúa í Grindavík rýmkaðar til flutninga á munum sínum. Hægt er að fara inn í bæinn frá klukkan 9:00 – 16:00 en þá eiga allir að yfirgefa bæinn. Vísir/Vilhelm

Íbúar í Grindavík hafa í dag heimild til að fara inn í bæinn með flutningabíla. Heimildin gildir frá klukkan níu til fjögur. Í næstu viku verður boðið upp á aðstoð við flutninga. 

Grindvíkingar þurfa að sækja um heimildina á Island.is og mun aðgerðarstjórn úthluta ákveðnum tímum til að fara inn með stóra bíla. Verður því raðar eftir hverfum og götum eins og best er talið, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Tekið er fram að áfram sé heimilt að notast við einkabíla og kerrur. 

Fljótlega verður send út könnun til íbúa Grindavíkur um stöðu flutninga á verðmætum og eignum af svæðinu svo betri yfirsýn fáist yfir stöðuna. Vísir/Vilhelm

Aðstoð í boði í næstu viku

Í næsta viku verður íbúum boðið upp á aðstoð við að nálgast og flytja eigur. Hægt er að senda inn beiðni í gegnum þjónustugátt eða Island.is í byrjun næstu viku. Þeir sem nýta sér þjónustuna þurfa að vera á staðnum við pökkun og flutninga. 

Tilhögun verður áfram eftirfarandi hætti:

  • Íbúar sem hafa fengið staðfesta skráningu á beiðni til að fara inn í húseign þurfa ekki að sækja um aftur.
  • Grindavík er lokuð fyrir öllum öðrum en íbúum bæjarins og þeim sem aðstoða íbúa.
  • Grindavíkurvegur er lokaður, en hægt er að aka Nesveg og Suðurstrandarveg.
  • Mælst er til þess að komið sé á eigin bílum, hámark 1 bíll á hvert heimili. Ekki er æskilegt að börn séu tekin með sökum aðstæðna á staðnum.
  • Athugaðu að hvorki er virkt frárennsli né rennandi vatn þannig að ekki hægt að nota salerni í húsum í Grindavík. Komið hefur verið fyrir salernum við grunnskólana tvo.
  • Taktu með þér vatn og önnur matföng fyrir daginn því ekki er hægt að nálgast slíkt í bænum.
  • Hafðu í huga að hús gætu verið ótrygg. Hægt er að hafa samband við viðbragðsaðila á staðnum.
  • Mikilvægt er að hvert og eitt heimili skrái hjá sér þau verðmæti sem tekin eru úr húsunum og hafi samband við sitt tryggingafélags vegna þess.
  • Eigendur húsa eru hvattir til þess að athuga með hvort hiti sé á húsum sínum. Ef svo er ekki má leita ráðlegginga hjá HS Veitum.
  • Iðnaðarmenn og íbúar verða að störfum í húsum þar sem hitaveita er ekki í lagi.
  • Íbúar eru hvattir til þess að ganga um og frá húsum sínum með þeim hætti, að komið geti til rýminga með stuttum fyrirvara.
  • Á meðan þú ert í Grindavík er afar mikilvægt að þú fylgir tilmælum viðbragðsaðila á öllum stundum ef/þegar þau verða gefin.
  • Athygli er vakin á að á sama tíma og íbúar fá aðgang er unnið að öðrum verkefnum í bænum.
  • Engar hömlur eru að aðgengi fjölmiðla, en þeir þurfa að fara um Suðurstrandarveg eða Nesveg.
  • Komi til rýmingar vegna hættuástands munu viðbragðsaðilar þeyta sírenum og ljósmerkjum á ökutækjum og þýðir það tafarlaus rýming á svæðinu samkvæmt rýmingaráætlun. Rýmingarleiðir úr bænum eru eftir Suðurstrandavegi eða Nesvegi.
  • Í undirbúningi er að senda út könnun til íbúa um stöðu flutninga á verðmætum og eignum af svæðinu svo betri yfirsýn fáist yfir stöðuna og mögulega flutningaþörf seinna meir.
  • Allar aðgerðir miðast við að Almannavarnakerfið sé í viðbragðsstöðu ef staðan breytist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×