Fótbolti

Pep segir mál City vera allt öðru­vísi en mál Everton

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pep Guardiola segir að ekki sé hægt að bera mál Manchester City og Everton saman.
Pep Guardiola segir að ekki sé hægt að bera mál Manchester City og Everton saman. Robin Jones/Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, segir að ekki sé hægt að bera mál félagsins, þar sem félagið er sakað um 115 brot á fjárhagsreglum ensku úrvalsdeildarinnar, saman við mál Everton. 

Tíu stig voru dregin af Everton á föstudaginn fyrir rúmri viku síðan fyrir brot á fjárhagsreglum um hagnað og sjálfbærni í rekstri. Eftir dóminn beindust spjótin, kannski eðlilega, að Manchester City, sem sakað er um 115 brot á fjárhagsreglum ensku úrvalsdeildarinnar.

Aðspurður að því hvort hann hefði áhyggjur af því hvað gæti komið fyrir Manchester City eftir að stigin voru dregin af Everton sagði Pep þó að ekki væri hægt að bera þessi tvö mál saman.

„Þetta eru tvö mismunandi mál. Þetta er ekki það sama, í alvörunni,“ sagði Pep á blaðamannafundi í gær.

„Okkar mál tekur lengri tíma þar sem það er mun flóknara af því að þar er verið að rannsaka 115 brot. Þannig við skulum bara bíða. Svo munu lögfræðingarnir flytja sín mál fyrir dómara áður en við fáum niðurstöðu,“ bætti Spánverjinn við.

Eins og áður segir er Manchester City sakað um 115 brot á fjárhagsreglum deildarinnar á árunum 2009 til 2018. Þá er félagið einnig sakað um að hafa ekki sínt samstarfsvilja síðan rannsóknin hófst árið 2018. Félagið var ákært fyrir brotin í febrúar á þessu ári, áður en ákæra var gefin út á hendur Everton, en mál City er enn í ferli.

Eftir að stigin voru dregin af Everton hafa margir velt því fyrir sér hver refsing Manchester City verður ef félagið er fundið sekt um botin. Einn möguleikinn er sá að liðið verði dæmt niður um deild, en Guardiola segist ekki ætla að yfirgefa félagið ef svo verður.

„Ég ætla bara að bíða og sjá hvað gerist. Bíða og sjá og svo þegar búið er að dæma kem ég aftur hingað og útskýri mína hlið.“

„En ég mun ekki endurskoða stöðu mína hvort sem það verður hér í úrvalsdeildinni eða í C-deild. Það eru meiri líkur á því að ég verði áfram ef við verðum í C-deild heldur en ef við vinnum Meistaradeildina aftur,“ bættu Pep við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×