Innlent

Svæðið milli Hagafells og Sýlingarfells á­fram lík­legast

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Líkur á eldgosi fara minnkandi þó enn sé hættustig á svæðinu.
Líkur á eldgosi fara minnkandi þó enn sé hættustig á svæðinu. Vísir/vilhelm

Áfram eru taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum á Reykjanesskaga. Í dag hafa tæplega 300 skjálftar mælst frá miðnætti. Þetta kemur fram í samantekt á vef Veðurstofu Íslands.

Í gær mældust um 650 jarðskjálftar nærri kvikuganginum og frá miðnætti í dag hafa tæplega 300 skjálftar mælst. Langflestir skjálftanna eru undir 1 að stærð en stærsti skjálftinn síðustu tvo daga mældist 2.7 að stærð nærri Hagafelli. Áfram dregur úr skjálftavirkni.

Skjálftavirknin hefur minnkað mikið undanfarna viku.Veðurstofa Íslands

Aflögunargögn frá GPS mælum sýna að þensla heldur áfram við Svartsengi og aflögun mælist enn nærri kvikuganginum. Þó eru vísbendingar um að dragi úr aflögunarhraða sé horft á gögn síðustu viku. 

„Hins vegar er túlkun aflögunargagna flókin á þessu stigi. Það er vegna þess að önnur ferli eins og sprunguhreyfingar tengdar jarðskjálftum og seigfjaðrandi svörun jarðskorpunnar vegna umbrota á svæðinu hafa áhrif á aflögunarmerkin,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Hættusvæðin þrjú.Veðurstofa Íslands

Miðað við nýjustu samtúlkun allra gagna eru áfram taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum. Líklegast er talið að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells. Á meðan að áfram dregur úr aflögun, skjálftavirkni og innflæði í kvikuganginn minnka líkurnar á eldgosi með tímanum.


Tengdar fréttir

Húsnæðisstuðningur við Grindvíkinga fyrir 240 milljónir á mánuði

Ríkisstjórnin samþykkti á ríkisstjórnarfundi í dag stuðningsaðgerðir til að mæta húsnæðisþörfum Grindvíkinga vegna jarðhræringa á svæðinu. Aðgerðirnar fela meðal annars í sér tímabundinn fjárhagslegan stuðning vegna aukins húsnæðiskostnaðar Grindvíkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×