Skoðun

Nú eru þeir strákarnir þeirra

Bubbi Morthens skrifar

Hvernig gat þetta gerst, að Handknattleikssamband Íslands gerði samning við Arnarlax, þá norsku aurgoða sem hafa hreiðrað um sig í fjörðum landsins og eru að þar leggja lífríkið í rúst? Formaður HSÍ hefur gerst sekur um alvarlegan dómgreindarbrest og ætti að segja af sér strax.

Arnarlax var sektað ekki alls fyrir löngu af Matvælastofnun að upphæð 120 miljón króna fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um strok á laxi úr kvíum sínum. Þessi samningur milli HSÍ og Arnarlax er reginhneyksli og sýnir stórkostlegan dómgreindarskort af hálfu formanns HSÍ, Guðmundar B. Ólafssonar.

Arnarlax hefur sýnt fullkomið og vítavert gáleysi og ekki fyrsta sinn gagnvart íslenskri náttúru og brot þeirra er margþætt. Þetta sjókvíaeldi er hörmulegur og mengandi iðnaður sem mun ganga af íslenskum náttúrulegum laxastofni dauðum. Að þiggja peninga frá þessu fyrirtæki sem vill nýta sér íslenska landsliðið til að hvítþvo dapurlega ímynd sína er ömurlegt og hefur skaðað íþróttina sem og landsliðið í heild. Hver hefur geð í sér að horfa á strákana okkar auglýsa Arnarlax, fyrirtæki sem hefur að því virðist engan áhuga á íslenskri náttúru annan en þann að mergsjúga hana til þess eins að græða sem mest og skilja lítið sem ekkert eftir af þeim ofboðslega arði sem þeir hirða upp úr fjörðum landsins.

Ég segi líkt og gamla fólkið í æsku minni: HSÍ ætti að skammast sín. Norsku aurgoðarnir hafa ekki bara hirt firði landsins heldur líka íslenska landsliðið í handbolta og nú eru þeir strákarnir þeirra.

Höfundur er tónlistarmaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×