Fótbolti

Sonur Zlatans valinn í landsliðshóp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic með syni sínum Vincent Ibrahimovic þegar þeir voru á leik hjá AC Milan.
Zlatan Ibrahimovic með syni sínum Vincent Ibrahimovic þegar þeir voru á leik hjá AC Milan. Getty/Marco Luzzani

Zlatan Ibrahimovic hefur sett landsliðsskóna upp á hilluna en það gæti verið stutt í það að annar Ibrahimovic spili með sænska landsliðinu.

Sænskir fjölmiðlar segja frá því að sonur Zlatans Ibrahimovic hafi nú verið valinn í landsliðshóp.

Hinn fimmtán ára gamli Vincent Ibrahimovic var valinn í stórt úrtak fyrir sænska leikmenn fædda árið 2008.

Þetta er í fyrsta sinn sem sonur Zlatans kemur nálægt landsliðinu.

Hann er að spila með piltaliði AC Milan þar sem Zlatans Ibrahimovic sjálfur endaði feril sinn.

Alls voru 66 leikmenn valdir fyrir æfingar sem fara fram rétt utan Stokkhólms frá 4. til 7. desember.

Zlatan Ibrahimovic spilaði 122 leiki fyrir sænska landsliðið og skoraði í þeim 62 mörk sem er markamet sænska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×