Handbolti

Toppliðin skildu jöfn í æsi­spennandi leikjum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sigvaldi Björn hefur notið góðs gengis með Kolstad á tímabilinu
Sigvaldi Björn hefur notið góðs gengis með Kolstad á tímabilinu Kolstad

Kolstad og PSG gerðu æsispennandi 28-28 jafntefli sín á milli í 8. umferð Meistaradeildar karla í handbolta. Sigvaldi Björn Guðjónsson fór að venju mikinn í liði Kolstad og skoraði sjö mörk. Liðin sitja jöfn í 3. og 4. sæti A riðils. 

Ekkert skildi liðin að fyrstu mínúturnar en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn fór Kolstad fram úr heimamönnum í PSG. Þeir komust mest fjórum mörkum yfir og héldu forystunni fram í seinni hálfleik. Þá lifnaði PSG aftur við og jafnaði leikinn, tóku svo sjálfir fram úr og leiddu með þremur mörkum þegar aðeins tíu mínútur voru eftir. Kolstad hristi það þó fljótt af sér og baráttan um sigurinn var blóðug fram á síðustu stundu en hvorugu liði tókst að hneppa hnossið. 

Tveir aðrir leikir fóru fram í A riðli Meistaradeildarinnar fyrr í dag. 

Aalborg og Kiel, efstu tvö lið riðilsins gerðu einnig jafntefli sín á milli, 27-27. Allt leit út fyrir að Kiel bæri sigurorð af en ótrúlegur endasprettur Aalborg tryggði þeim stigið. Kiel komst sex mörkum yfir þegar átta mínútur voru eftir en Aalborg greip þá til sinna ráða, lokaði markinu og skoruðu sjálfir sex í röð. 

Kiel er þó áfram í efsta sæti riðilsins með 11 stig, Aalborg fylgir fast á eftir með 10 stig og PSG og Kolstad eru jöfn þar á eftir með 9 stig. 

RK Eurofarm Pelister komst svo hársbreidd frá sínum fyrsta sigri í Meistaradeildinni þegar þeir tóku á móti Pick Szeged. Jafnræði ríkti milli liðanna allan leikinn þó Pick Szeged hafi oftar komist yfir, Zoltan Szita skoraði svo sigurmarkið þegar átta sekúndur voru eftir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×