Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gaf í fyrsta skipti frá því á þriðjudaginn í síðustu viku blaða-og fréttamönnum leyfi til að fara inn í Grindavík en aðeins í fylgd Almannavarna.
Erlendir blaðamenn ásamt íslenskum kollegum sínum fengu að fara á þrjá staði á bænum þar sem skemmdir eru augljósastar. Fólk frá björgunarsveitum og almannavörnum sem hafa verið daglega í Grindavík frá rýmingunni föstudaginn 10. nóvember segir að sprunga sem liggur í gegnum bæinn sé stöðugt að gliðna. Það mátti sjá glitta í reyk og lagnir sem lágu hér og þar upp úr henni.

Eins og í bíómynd
Pálmi Þrastarsson björgunarsveitarmaður úr Grindavík hefur verið á vaktinni frá rýmingu. Hann segir að jarðhræringarnar hafi víða haft áhrif á bæinn.
„Almennt er stærsti hluti bæjarins nokkuð góður. Það ber á minni háttar skemmdum víða um bæinn og svo stærri skemmdum á nokkrum stöðum,“ segir Pálmi.
Hann segist ekki hafa fundið fyrir jarðskjálftum frá því að rýming fór fram en skjálftarnir þá hafi verið rosalegir.
„Það var stórundarlegt, eins og í amerískri bíómynd,“ segir hann.
Spánverjar fylgjast vel með
Meðal fréttamanna sem kannaði aðstæður í Grindavík í dag var Marcos Mendes frá Spáni. Hann segir að samlandar sínir hafi fylgst vel með jarðhræringunum í Grindavík einkum íbúar La Palma en eldfjall við borgina gaus 2021.
„Við höfðum ekki tíma til að byggja varnargarða í La Palma á sínum tíma þannig að kvika fór inn í borgina þegar eldfjallið við borgina gaus. Íbúar þar hafa því mikinn áhuga á uppbyggingu varnargarðanna í Svartsengi og vona að sú þekking sem er að verða til þarna nýtist í áframhaldinu,“ segir Marcos.