Innlent

Gleymdi hvað hann ætlaði að sækja vegna hryllingsins sem blasti við

Kolbeinn Tumi Daðason og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Baldvin Einar segir óvissuna fram undan algjöra.
Baldvin Einar segir óvissuna fram undan algjöra. Vísir

Baldvin Einar Einarsson, íbúi í Grindavík, segir hús sitt í norðurhluta bæjarins ónýtt. Óvissan sé algjör en hann búi nú hjá þriggja manna fjölskyldu sonar síns í fjörutíu fermetra íbúð. Hann flutti til Grindavíkur fyrir fjórum árum til að vera nærri foreldrum sínum sem nú eru fallnir frá.

Verðmætabjörgun heldur áfram í Grindavík í dag. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum greindi frá því í morgun að búið hefði verið að hafa samband við þá íbúa sem fengu að fara heim í dag í skamma stund. Aðkomuleið væri um Grindavíkurveg.

Baldvin Einar var einn þeirra sem fékk að fara heim í fylgd björgunarsveita. Húsið hans er nyrst í bænum, fyrstu götu til vinstri þegar ekið er inn í bæinn.

„Það gekk alveg herfilega en vel miðað við aðstæður. Húsið mitt er náttúrulega bara ónýtt. Sígið þak og annað. Það þurfti björgunarsveitarfólk með hjálma að fara með mér,“ segir Baldvin Einar. Aðkoman innanhúss hafi verið hrikaleg.

„Hryllingur. Brotnir veggir og sigið loft, gólfið sigið. Þú varst bara að stíga ölduna með því að labba á gólfinu.“

Hann segir stöðuna sem upp er komin glataða.

Versnað helling á þremur dögum

„Maður er að tapa aleiguna í ekki neitt. Óvíst með framtíðina. Maður er á götunni og þarf að bjarga sér.“

Baldvin fékk að fara heim á mánudaginn í tíu mínútur. Hann segir skemmdirnar miklu meiri en á mánudaginn þegar ástandið var þegar slæmt.

„Þetta hefur versnað helling síðan á mánudag. Það er sprunga undir húsinu. Innkeyslan er í V, þakið er sigið. Það er hrikalegt að sjá húsið,“ segir Baldvin Einar.

Hann flutti til Grindavíkur árið 2019 og keypti húsið, þá glænýtt parhús.

Vildi vera nærri foreldrum sínum

„Ég flutti af því foreldrar mínir voru þarna á dvalarheimilnu. Þau eru bæði fallin frá. Svo er bróðir minn í næstu götu. Það er það sem amður þekkir af fólki. Maður kannast við fullt af fólki en þekki það ekki,“ segir Baldvin Einar sem bjó einn í húsinu í Grindavík.

Hann sagði húsið við hliðina líklega skemmt að einhverju leyti. Það væri aðeins fjær sprungunni. Varðandi verðmætin sem hann náði að bjarga þá væri það einfaldlega það sem hann hafi komið fyrir í skottinu.

„Hvenær er maður búinn að ná því helsta? Ég held ekki. Það eru hlutir þarna inni sem maður fær aldrei bætt. Minnningar, erfðagripir, sem maður hefur ekki ráð eða hugsun til að grípa þegar maður fær fimm til tíu mínútur,“ segir Baldvin Einar.

„Maður er búinn að ákveða að ætla að taka einhverja hluti en það bara gleymist um leið og þú kemur inn og sérð hvernig ástandið er.“

Fær inni hjá syni sínum

Hann segir óvissuna algjöra.

„Ég veit akkurat ekki neitt. Ég tróð mér inn í litla íbúð hjá syni mínum, tilvonandi tengdadóttur og með lítið barn í fjörutíu fermetrum,“ segir Baldvin Einar. Það sé tímabundin lausn en annars sé hann á hrakhólum.

„Ég er að leita að íbúð. En svo er maður að borga af lánum, fasteignagjöld og annað sem klára hér um bil launin manns. Það er spurning hvað situr eftir,“ segir Baldvin Einar. 

„Lífeyrissjóðurinn er búinn að bjóða mér frystingu með því að bæta vöxtum og verðbótum ofan á höfuðstólinn. Það er auðvitað bara glatað. Staðan er að halda áfram að borga af ónýtu húsi og reyna að koma sér einhvers staðar inn.“

Baldvin vildi nota tækifærið og þakka rosalega vel fyrir aðstoð björgunarsveitarfólks. Hvernig það hefði staðið að öllu.

„Ég er mjög sáttur og ánægður með almannavarnir og hvernig staðið er að þessu. Það brennur á fólki spurningar sem vantar svör við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×