Innlent

„Þetta gæti hlaupið á tugum hillumetra af skjölum“

Lovísa Arnardóttir skrifar
Árni bíður ásamt teymi frá Þjóðskjalasafni og Grindvíkurbæ eftir því að komast inn til að bjarga verðmætum skjölum.
Árni bíður ásamt teymi frá Þjóðskjalasafni og Grindvíkurbæ eftir því að komast inn til að bjarga verðmætum skjölum. Vísir/Vilhelm

Starfsfólk Þjóðskjalasafns og Grindavíkurbæjar ætlar að reyna að bjarga sem mestu af skjölum bæjarins í dag. Í forgangi eru skjöl er varða lóðir, barnavernd og fatlaða einstaklinga. Um mjög mikið magn er að ræða að mati skjalavarðar Þjóðskjalasafns. 

Tíu manns frá Þjóðskjalasafninu eru nú á leið til Grindavíkur til að sækja verðmæt skjöl. Árni Jóhannsson, skjalavörður, segir í samtali við fréttastofu að reynt verði að vinna hratt til að bjarga skjölum bæjarins í tæka tíð. 

„Við ætlum að reyna að ná sem mestu af skjalasafni bæjarins. Við erum tíu frá Þjóðskjalasafninu ásamt fjórum starfsmönnum bæjarins sem þekkja hvað er mikilvægt að taka. Við munum flytja skjölin til varðveislu á Þjóðskjalasafninu,“ segir Árni sem bíður nú í röð eins og fleiri eftir því að komast inn á svæðið.

„Ef allt fer á versta veg verða skjölin trygg.“

Árni segir að lögð verði áhersla á skjöl er varða réttindi einstaklinga fyrst og svo til skjala er varða hag bæjarins.

„Til að mynda hvar eignir fasteigna liggja, og lóðir. Svo lítum við til barnaverndar og málefna fatlaðra. Það eru réttindi einstaklinga og hagur bæjarins. Það er forgangsröðunin en við reynum að ná öllu. En fyrst þarf að tryggja réttindi einstaklinganna,“ segir Árni.

Hvað heldurðu að þetta séu mörg skjöl?

„Það er erfitt að segja en þetta gæti hlaupið á tugum hillumetra af skjölum. Mögulega nálægt hundrað metrum. Kannski aðeins sunnan við það mark. Þetta er talsvert magn þannig við reynum að ná sem mestu.“

Hann segir að reynt verði að vinna hratt en þau vita ekki enn hversu mikinn tíma þau hafa fengið. Unnið er að þessu í nánu samráði við almannavarnir sem úthlutar þeim tíma.

„Við buðum fram aðstoð um helgina og nú fáum við vonandi að ná þessu út, í tæka tíð.“


Tengdar fréttir

Bíða þess að komast inn til að vökva og sækja erfða­breyttar plöntur

Teymi frá ORF líftæknifyrirtæki vonast til þess að geta sótt verðmætar erfðabreyttar plöntur í gróðurhús þeirra í Grindavík í dag. Einnig þarf að fylla á vökvakerfið en það var gert síðasta á sunnudag. Miklar skemmdir voru þá á gróðurhúsinu sem er beint fyrir ofan sprungusvæðið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×