Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðingur var á vaktinni hjá Veðurstofu Íslands í nótt og segir hana hafa verið svipaða og síðustu nætur.
„Það eru rétt um fimmhundruð skjálftar frá miðnætti og stærsti skjálftinn mældist 2,6 stig en hann kom tólf mínútur yfir þrjú í nótt.“
Mest virkni austan við Þorbjörn
Bjarki segir að hann hafi átt upptök sín við Hagafell, austan við Þorbjörn. Þar hafi líka mesta virknin verið, sem sé eins og verið hefur síðustu daga.
„Þetta er í miðju kvikugangsins, meira og minna.“
Bjarki segir að jarðskjálftavirknin sé stöðug ennþá en að stærri skjálftarnir séu þó eilítið minni en þeir voru áður. Þó ekki svo mjög mikið. Enginn gosórói hefur mælst á svæðinu ennþá.
„Svo erum við búin að vera að fylgjast með svæðinu líka því vinnutæki hafa verið á svæðinu í alla nótt að keyra efni í varnargarðana,“ segir Bjarki.
Veðurstofan fylgist því með mælum til þess að hægt sé að vara verktakana við ef aðstæður breytast.
Fundur sérfræðinga klukkan 9:30
Sérfræðingar Veðurstofunnar munu funda klukkan 9.30, eins og venjulega, til að leggja mat á nýjustu gögn og upplýsingar.
Kristín Jónsdóttir jarðskjálftafræðingur sagði í Pallborðinu á Vísi í gær að gosórói og grunnir skjálftar myndu mælast klukkustundum áður en eldgos hæfist. Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur sagði fyrirvarann verða minnst hálftími.
Í dag verður opnuð þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga í Tollhúsinu í Reykjavík. Þar verður boðið upp á samveru, stuðning, ráðgjöf og fræðslu.