Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík þar sem segir frá því að stór og vel búinn hópur björgunarsveitarfólks hafi haldið inn í bæinn snemma í morgun til að meta tjón á vegum og öðrum innviðum.
Var markmiðið að undirbúa verðmætabjörgun frá heimilum og reyna eftir fremsta megni tryggja öryggi íbúa við það, en lögregla gaf í dag grænt ljós á að íbúar og fulltrúar á skilgreindum svæðum í bænum geti haldið inn í bæinn í fylgd björgunarsveita til að bjarga verðmætum.
„Ljóst er að gríðarlegt tjón er á bænum okkar og gott að fólk undirbúi sig undir það.
Tjónin eru samt misjöfn og virðast staðbundin við fyrstu skoðun. Vegir eru víða í sundur og höfum við lagt kapp á það að loka þeim svo ekki sé hætta af,“ segir í fæslunni.
Fólk virði lokanir
Sveitin vill biðja alla sem komi í bæinn að fara varlega og virða þær lokanir sem hafa verið settar upp.
„Til þess að flýta fyrir opnun höfum við notast við garðbekki, blómapotta og fleira slíkt sem fundum og vonumst við til þess að fólk sýni því skilning. Við höfum einnig farið með vinnuvélar yfir allar sprungur og þær sprungur sem ekki er búið að loka fyrir teljum við óhætt að aka yfir.
Að lokum viljum við biðja íbúa að virða þann tíma sem þeim er gefin til að sækja verðmæti svo fleiri geti komist til síns heima.
Það væri gott ef þessi póstur myndi rata til allra Grindvíkinga,“ segir á færslu björgunarsveitarinnar.