Stuðningsmenn Hammarby þykja í hópi þeirra allra hörðustu í Svíþjóð og þeir fjölmenntu til að styðja á bak við stelpurnar sínar enda búnir að bíða mjög lengi eftir gullinu.
Hammarby nýtti sér stuðninginn og tryggði sér titilinn með 2-0 sigri á Norrköping á útivelli. Þær fengu á endanum jafnmörg stig og Häcken en unnu titilinn á einu marki í markatölu.
Madelen Janogy var hetja liðsins því hún skoraði bæði mörkin í sigrinum og skoraði líka eitt marka liðsins í mikilvægum 3-2 sigri í leiknum á undan sem var einmitt á móti Häcken. Í úrslitaleiknum um helgina skoraði hún sitt ellefta og tólfta deildarmark á tímabilinu og varð hún markahæsti leikmaður liðsins.
Það fór því ekkert á milli mála að hetja meistaranna var umrædd Janogy sem hélt síðan upp á 28 ára afmælið sitt í gær.
Sportbladet fékk Janogy í myndatöku eftir sigurinn og tók hún liðsfélaga sína Matilda Vinberg og Ellen Gibson með sér.
Janogy og félagar hennar voru til í allt og þar á meðal að mála sig allar í gulllitum frá toppi til táar fyrir forsíðumynd blaðsins. Hér fyrir neðan má myndband frá þessari sérstöku myndatöku Sportbladet. Ef Instagram færslurnar birtast ekki þá er gott að endurhlaða fréttina.