Innlent

Það skásta og það versta sem gæti gerst fari að gjósa

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Hvort að það gýs þar, eða hvort það gýs norðar, eða hvort það gýs ekki neitt, það getum við ekki vitað. En „Líkurnar eru töluverðar og þess vegna hefur Grindavík verið lokað alveg. Það er ekki öruggt fyrir neinn að vera þar,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.
„Hvort að það gýs þar, eða hvort það gýs norðar, eða hvort það gýs ekki neitt, það getum við ekki vitað. En „Líkurnar eru töluverðar og þess vegna hefur Grindavík verið lokað alveg. Það er ekki öruggt fyrir neinn að vera þar,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði. Vísir/Vilhelm

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, skoðaði verstu og skástu sviðsmyndirnar kæmi til goss á Reykjanesskaga í kvöldfréttum Stöðvar 2. Í verstu sviðsmyndinni myndi hraun renna í Grindavíkurbæ.

Hann segir að á síðustu þrjátíu klukkutímum hafi myndast mikill kvikugangur og að líkur á gosi aukist þar sem gangurinn færist ofar.

„Því lengur sem þetta heldur áfram því meiri líkur eru á að þetta endi með gosi. Það gæti gerst á næstu klukkutímum eða dögum, við vitum það ekki alveg,“ segir Magnús Tumi.

Aðspurður um hvar líklegasta staðsetning eldgos sé að svo stöddu segir hann að kvikugangurinn hafi verið mestur í útjaðri Grindavíkur norðvestanverðri.

„Hvort að það gýs þar, eða hvort það gýs norðar, eða hvort það gýs ekki neitt, það getum við ekki vitað. En líkurnar eru töluverðar og þess vegna hefur Grindavík verið lokað alveg. Það er ekki öruggt fyrir neinn að vera þar.“

Versta sviðsmyndin að mati Magnúsar væri stórt sprungugos, líkt þeim sem hafa orðið á síðustu árum, þar sem að hraun myndi fara yfir Grindavík. Þá sé möguleiki að gosið yrði töluvert stærra en þau sem hafa verið á Reykjanesskaga undanfarið.

Skásta sviðsmyndin ef það verður gos, væri hins vegar að fá lítið gos norðan Sundhnjúka, í líkingu við fyrri gos, að mati Magnúsar Tuma. „Það er besta sviðsmyndin. Aðrar sviðsmyndir eru verri,“ segir hann.

„Þetta verður bara að koma í ljós, en við verðum að vera viðbúin öllu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×