Í ákæru sem fréttastofa hefur undir höndum er lögreglumanninum gefið að sök að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða við handtöku a manni.
Lögreglumaðurinn er sagður hafa beitt úðavopni ítrekað gegn manninum, sparkað í vinstri fótlegg hans, jafnvel þó brotaþolinn hafi ekki veitt honum mótspyrnu við handtökuna. Þá hafi hann slegið manninn fjórum sinnum með kylfu í líkama þegar hinn maðurinn lá á fjórum fótum, án þess að nauðsyn bæri til.
Meint aðför lögreglumannsins eru sögð brjóta í bága við þrjár tilteknar greinar í hegningarlögum. Annars vegar er það líkamsárás, sem getur varðað allt að eins árs fangelsi, og hins vegar tvenns konar brot í opinberu starfi. Önnur þeirra getur varðað allt að eins árs fangelsi, en hin getur aukið refsingu um helming.
Það er héraðssaksóknari sem rekur málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, og krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í framhaldsákæru sem fréttastofa hefur undir höndum kemur fram að brotaþoli málsins krefjist tveggja milljóna króna í miskabætur.