Körfubolti

„Fannst við gera vel í að kreista þennan fram“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Þór Ólafsson stýrði sínum mönnum til sigurs í kvöld.
Jóhann Þór Ólafsson stýrði sínum mönnum til sigurs í kvöld. Vísir/Anton Brink

Jóhann Þór Ólafsson var ánægður með þriðja sigur Grindavíkur í röð í Subway-deild karla. Grindvíkingar lögðu Þórsara frá Þorlákshöfn á heimavelli sínum í kvöld.

„Það er bara eitt og annað. Í seinni hálfleik erum við á köflum úr jafnvægi varnarlega. Pruitt setur risaskot, erfið skot sem við svo sem alveg sættum okkur við en hann bara hittir,“ sagði Jóhann Þór aðspurður hvers vegna Þórsarar komust aftur inn í leikinn eftir að Grindvíkingar náðu fínu forskoti bæði í fyrri og seinni hálfleik.

„Þórsarar eru síðan bara með hörkulið, vel rútinerað og það var vitað að þeir kæmu með áhlaup sem þeir og gerðu. Mér fannst við gera vel í að halda út og kreista þennan fram. Það gerir helling fyrir okkur.“

Margir lögðu í púkkið í kvöld hjá heimamönnum og það var Jóhann Þór ánægður með. Dedrick Basile var öflugur allan tímann, DeAndre Kane kom sterkur inn í lokin og þeir Ólafur Ólafsson, Daniel Mortensen og Kristófer Breki áttu allir góða spretti.

„Við fáum framlag úr mjög mörgum áttum. Valur (Orri Valsson) komst alveg í mjög góðan takt í restina og menn taka því sem að höndum ber. Arnór Tristan (Helgason) kom með frábæra frammistöðu bæði í fyrri og seinni hálfleik. Hann nýtur augnabliksins og þetta er það skemmtilegasta sem hann gerist. Að gleyma sér aðeins í augnablikinu og njóta og hann er að gera það mjög vel,“ bætti Jóhann Þór við en Arnór Tristan tróð í tvígang í fyrri hálfleik og varði þar að auki skot frá Fotios Lampropoulos með tilþrifum.

Eftir þrjá tapleiki í byrjun móts hafa Grindvíkingar náð vopnum sínum á ný og unnið síðustu þrjá leiki. Meiðslavandræði gerðu þeim erfitt fyrir í upphafi en Jóhann Þór er nokkuð sáttur með gang mála.

„Mér finnst við vera mega komnir aðeins lengra og þá sérstaklega sóknarlega. Þetta er ekki alveg nægilega vel smurt. Við erum of staðir og að treysta á einstaklingsframtakið sem við förum ekki langt á þegar mikið er undir. Það er eitt og annað sem við þurfum að laga en fullt af jákvæðum punktum og ég er bara mjög sáttur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×