Þetta segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Þar segir að síðastliðinn sólarhring hafi um 1.300 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga, þar af þrír skjálftar yfir þremur að stærð. Stærsti skjálftinn hafi orðið um þrjá kílómetra norðaustan við Þorbjörn og mælst 3,6 að stærð um klukkan 07 í morgun.
Aflögunarmælingar sýni að landris heldi áfram á svæðinu norðvestan við Þorbjörn og vísbendingar séu um aukinn hraða á þenslu frá því á föstudaginn 3. nóvember.
Samkvæmt uppfærðum líkanreikningum, sem byggja á gögnum frá 27. október til 3. nóvember, sé syllan orðin tvöfalt stærri en þær fjórar syllur sem hafa myndast við Þorbjörn frá árinu 2020.
Innflæði inní sylluna sé metið um sjö rúmmetrar á sekúndu, sem sé fjórfalt hraðar en fyrri innskot við Þorbjörn.
Á meðan að kvikusöfnunin heldur áfram megi gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.
Í spilaranum hér að neðan má fylgjast með streymi úr myndavél ofan á Þorbirni.