Innlent

Mikill léttir að vera heima en ekki í Laugar­dalnum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Lögreglan fékk tilkynningu um mann að banka á dyr í fjölbýlishúsi. Hann reyndist vera heima hjá sér. Myndin er úr safni.
Lögreglan fékk tilkynningu um mann að banka á dyr í fjölbýlishúsi. Hann reyndist vera heima hjá sér. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um einstakling sem var að banka á hurðir á fjölbýlishúsi í dag. Þegar lögreglu bar að garði sá hún einstaklinginn sofandi ölvunarsvefni í sameign fjölbýlishússins.

Maðurinn hélt að hann væri staddur í Laugardalnum í Reykjavík, en var mikið létt þegar lögregla tjáði honum að hann væri staddur í fjölbýlishúsinu sem hann átti heima í. Þar af leiðandi gekk maðurinn niður nokkrar hæðir og fór inn til sín að sofa.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynningin kemur frá lögreglustöð þrjú, sem gefur til kynna að atvikið hafi átt sér stað í Kópavogi eða Breiðholti.

Lögreglustöð fjögur, sem fer með eftirlit í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ, fékk tilkynningu um grunsamlegar mannaferðir í dag. Í dagbók lögreglu segir þó að þær hafi átt sér eðlilegar skýringar. Grunsamlegu mennirnir hafi verið ferðamenn á leið í Airbnb-íbúð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×