Athöfnin fór fram í Forest Lawn kirkjugarðinum í Los Angeles, sem er skammt frá kvikmyndastúdíói Warner Bros, þar sem þættirnir Friends voru teknir upp. Hollywoodstjörnur á borð við Michael Jackson, Lucille Ball og Elizabeth Taylor hafa verið jarðsett í sama garði.
Vinirnir úr Friends létu sig ekki vanta í athöfnina, en þau gáfu sameiginlega út yfirlýsingu á mánudag. Guardian greinir frá því að Perry hafi verið jarðsunginn í kyrrþey og að um tuttugu manns hafi mætt í jarðarförina.
„Við erum öll niðurbrotin eftir fráfall Matthew. Við vorum meira en bara vinnufélagar. Við erum fjölskylda. Það er svo margt sem hægt er að segja en einmitt núna ætlum við að taka okkur tíma til að syrgja og komast í gegnum þennan óskiljanlega missi. Við munum tjá okkur frekar ef, og þegar við getum. Einmitt núna er hugur okkar hjá fjölskyldu Matty, vinum hans og öllum sem elskuðu hann,“ sagði í yfirlýsingu vinanna á mánudag.