Töluverð umræða hefur verið um Bláa lónið eftir að skjálftavirkni hófst á svæðinu og telja sumir að loka eigi lóninu á meðan óvissustig er á svæðinu. Einn þeirra er Sveinn Gauti Einarsson umhverfisverkfræðingur sem birti skoðanagrein á Vísi í gær þar sem hann spyr hvers vegna ekki sé búið að loka lóninu vegna jarðhræringa.
Hann vekur athygli á því að hús séu rýmd á hverju ári vegna snjóflóðahættu og eins á því að þrjú síðustu eldgos á Reykjanesskaga hafi hafist án viðvörunar.
Framkvæmdastjóri Bláa lónsins segir í samtali við fréttastofu að ekki sé tilefni til að loka lóninu að svo stöddu. Þau séu í nánu samstarfi við Almannavarnir og sérfræðinga og staðan metin daglega.
Landris vegna kvikusöfnunar við Þorbjörn heldur áfram. Dregið hefur úr skjálftavirkni síðan á sjötta tímanum í gær og segir náttúruvársérfræðingur á veðurstofunni að þeir skjálftar sem mælst hafa séu minni en áður. Gera megi þó ráð fyrir að jarðskjálftavirkni aukist aftur.
Fréttastofa ræddi við nokkra ferðamenn sem voru nýkomnir úr lóninu og spurði hvort þeir séu meðvitaðir um jarðhræringar og óvissuástandið á svæðinu.
„Nei það lét mig enginn vita þegar ég kom í lónið,“ segir Sam og bætir við að hann hefði líklega ekki farið ofan í hefði hann vitað af stöðunni.
Heyra má í fleiri ferðamönnum hér í sjónvarpsfréttinni að ofan.