Innlent

Skjálfti af stærðinni 4,3

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Grindavík og fjallið Þorbjörn í bakgrunni
Grindavík og fjallið Þorbjörn í bakgrunni Vísir/Arnar Halldórsson

Jarðskjálfti af stærðinni 4,3 mældist norðaustur af Grindavík klukkan 13:14 í dag. Um er að ræða einn stærsta skjálfta sem mælst hefur í yfirstandandi hrinu.

Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir í samtali við fréttastofu að enn sé verið að finna út stærð skjálftann og að ljóst megi vera að skjálftinn hafi verið um 4,3 að stærð. Upplýsingar sem birtust á töflu á vef Veðurstofunnar um að skjálftinn hafi verið 4,7 að stærð sé ekki rétt. 

Áköf skjálftahrina af völdum spennubreytinga átti sér stað eftir miðnætti og til morguns, en á þeim tíma mældust um þúsund skjálftar, þar af tólf yfir þrír af stærð og tveir yfir fjórum. Stærsti skjálftinn mældist klukkan 08:06 og var 4,3 að stærð. Klukkan rúmlega eitt mældist annar skjálfti af sömu stærð sem fannst vel á Reykjanesi. Annar jarðskjálfti af stærð 3,5 varð kl. 14:01 í Þorbirni.

Engin skýr merki um kviku að færast nær yfirborði

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að skjálftarnir virðast raða sér í norður-suður stefnu vestan Þor­bjarn­ar. Slík­ar sprung­ur séu þekkt­ar á svæðinu en þær safna spennu sem teng­ist land­reki og geta hrokkið vegna spennu frá inn­skot­um.

„Engin skýr merki eru að svo stöddu um að kvika sé að færast nær yfirborði. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í grynnkandi skjálftavirkni og vaxandi óróa sem eru afar tíðir og litlir skjálftar. Samhliða því ætti að mælast skyndileg aflögun (gliðnun) á yfirborði á GPS mælum. Vel er fylgst með þróun mála þar sem atburðarrásin getur breyst með litlum fyrirvara,“ segir í tilkynningunni.

Jarðeðlisfræðingur sagði í hádegisfréttum í dag eðlilegt að stærri skjálftar ríði yfir þegar landris verður eins hratt og raunin er við fjallið Þorbjörn. Það þurfi þó ekki að þýði að von sé á gosi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×