Formúla 1

Lög­maður Schumachers tjáir sig: „Snerist alltaf um að vernda einka­líf hans“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Schumacher varð sjö sinnum heimsmeistari ökuþóra á glæstum ferli.
Michael Schumacher varð sjö sinnum heimsmeistari ökuþóra á glæstum ferli. getty/Clive Mason

Lögmaður Michaels Schumacher útskýrir af hverju engin endanleg skýrsla um ástand ökuþórsins fyrrverandi hafi verið opinberuð.

Schumacher hefur ekki sést opinberlega síðan hann lenti í alvarlegu skíðaslysi fyrir áratug. Lítið er vitað um ástand hans nema að það er ekki gott. Talið er að Schumacher geti hvorki tjáð sig né gengið.

Lögmaður Schumachers, Felix Damm, tjáði sig um þögnina sem hefur ríkt um ástand hans við þýska fjölmiðilinn LTO.

„Þetta snerist alltaf um að vernda einkalíf hans. Við íhuguðum hvort endanleg skýrsla um heilsu Michaels væri rétta leiðin að fara,“ sagði Damm.

„Málinu hefði samt þá ekki verið lokið því það hefðu alltaf verið nýjar og nýjar upplýsingar að berast og það hefði ekki verið undir fjölskyldunni komið hvenær fjölmiðlaáhuganum myndi ljúka. Þeir gætu tekið skýrsluna aftur og aftur og spurt: hvernig lítur þetta út núna, einum, tveimur eða þremur mánuðum eða árum eftir skilaboðin.“

Damm vitnaði til þess að einstaklingar geti ekki óskað eftir friðhelgi ef upplýsingarnar sem er deilt eða það sem þeir eru spurður um hefur verið deilt opinberlega af þeim sjálfum eða fyrir þeirra hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×