Innlent

Lykla­maðurinn á Akur­eyri dæmdur fyrir rúðu­brot á Kaffi Lyst

Atli Ísleifsson skrifar
„Lyklamaðurinn“ svokallaði á að baki sakaferil sem nær allt til ársins 2007. Hann hlaut dóm fyrir að rispa bíla síðast í sumar.
„Lyklamaðurinn“ svokallaði á að baki sakaferil sem nær allt til ársins 2007. Hann hlaut dóm fyrir að rispa bíla síðast í sumar. Vísir

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í þrjátíu daga fangelsi fyrir að hafa annars vegar rispað bíl og hins vegar brotið tvær rúður á veitingahúsinu Kaffi Lyst Akureyri í byrjun sumars. Um er að ræða hegningarauka, en maðurinn hlaut 45 daga dóm í sumar fyrir að vinna skemmdarverk á bílum i júlí síðastliðnum.

Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa annars vegar rispað með lykli hægri afturhurð bíls sem lagður var á bílastæði við Hvannavelli á Akureyri þann 7. júní síðastliðinn. Þá var hann einnig dæmdur fyrir að hafa brotið tvær rúður á Kaffi Lyst í Lystigarðinum við Eyrarlandsveg í bænum með því að kasta grjóti í rúðurnar.

Maðurinn sótti ekki þing og var því dæmdur að honum fjarstöddum. Auk fangelsisrefsingarinnar var hann dæmdur til að greiða Akureyrarbæ 300 þúsund krónur, auk vaxta, í bætur vegna skemmdanna á rúðunum á Kaffi Lyst.

Í dómi kemur fram að hann eigi umtalsverðan sakaferil að baki sem nær aftur til ársins 2007. Í sumar hlaut hann 45 daga dóm fyrir að hafa unnið skemmdarverk á tveimur bílum í bænum í febrúar með því að rispa lakk bílanna með húslyklum, en með þeim brotum rauf hann skilorð vegna dóms sem hann hlaut í febrúar vegna þjófnaðarmáls.

Í fyrri frétt Vísis kemur fram að maðurinn hafi verið grunaður um að hafa unnið skemmdarverk á á þriðja tug bíla á Akureyri fyrstu helgina í júlí.

Um er að ræða mikla ferðahelgi meðal annars á Akureyri þar sem N1 mót ellefu og tólf ára drengja í fótbolta fer fram. 23 bílar hið minnsta voru lyklaðir umrædda helgi og beindist grunurinn fljótlega að fyrrnefndum karlmanni. Hann játaði hluta brotanna.


Tengdar fréttir

Lyklamaðurinn fékk 45 daga fangelsisdóm

Karlmaður búsettur á Akureyri hefur verið dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir að hafa unnið skemmdarverk á tveimur bílum í bænum í febrúar með því að rispa lakk bílanna með húslyklum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×