Innlent

Ölvaður með skot­vopn í bílnum

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla fann haglabyssu auk annars skotvopns og nokkurs magns skotfæra í bifreið manns í neðra Breiðholti í Reykjavík í gærkvöldi. Vopnin fundust þegar lögregla hafði afskipti af manninum vegna ölvunar.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn var handtekinn en hann er einnig grunaður um að aka undir áhrifum áfengis. 

Alls voru sjö vistaðir í fangageymslu yfir nóttina. Var það ýmist vegna ölvunar og fíkniefnaaksturs, slagsmála og skemmdarverka. Einn var handtekinn eftir að hafa sparkað í lögreglubifreið þannig að mikið tjón hlaust af. Sá var einnig með fíkniefni á sér. 

Tilkynnt var um hópslagsmál á skemmtistað í Grafarvogi. Í tilkynningu segir að dyravörður hafi verið með mann í tökum þegar lögreglu bar að garði. Sá reyndist vera með hníf á sér. Einn var fluttur á slysadeild til skoðunar. 

Þá kom upp eldur í bifreið á Barónstíg 2. Tveir bílar eru ónýtir vegna eldsins og sá þriðji talsvert skemmdur. Ekkert er vitað um eldsupptök að svo stöddu en lögregla fer með rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×