Anníe Mist tilkynnti að hún væri farin í barneignarfrí og það má segja að hún skipti við Toomey sem er að koma úr slíku. Toomey vann sex heimsmeistaratitla í röð áður en hún fór í barneignarfrí og missti af síðasta heimsmeistaramóti.
Toomey sýndi strax styrk sinn með því að vinna fyrstu grein mótsins eins og sjá má hér fyrir neðan.
Toomey eignaðist dótturina Willow 9. maí síðastliðinn en er nú mætt aftur í keppni fimm mánuðum síðar. Nobull tók viðtal við Toomey í tilefni af tímamótunum og það var augljóst að móðurhormónin voru enn á miklu flugi hjá henni.
„Ástæðan fyrir því að ég er mætt aftur á keppnisgólfið er að sanna fyrir sjálfri mér að ég geti gert þetta,“ sagði Toomey en komst ekki lengra því tárin fóru að renna.
„Ég vil ekki bara sanna mig fyrir sjálfri mér en ég vil líka sýna Willow hvað er mögulegt. Ég vil sjá hvað ég get gert,“ sagði Toomey grátklökk.
„Að vera mamma er líka að sýna börnunum hvað er mögulegt. Ég tel að ég sýni það að ég er sönn mamma með því að fara aftur út á keppnisgólfið sem og með að reyna á mörkin á hverjum degi,“ sagði Toomey.
„Það mun sýna henni hvað hún getur gert. Ég vona að ég fari ekki að gráta á keppnisgólfinu,“ sagði Toomey en viðtalið er hér fyrir neðan.