Handbolti

Fram og Afturelding unnu góða sigra

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði sex mörk fyrir Aftureldingu í kvöld.
Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði sex mörk fyrir Aftureldingu í kvöld. Vísir/Diego

Fram og Afturelding unnu góða sigra er áttunda umferð Olís-deildar karla í handbolta hélt áfram í kvöld. Fram vann nýliða HK 39-35 og Afturelding lagði Gróttu 30-25.

Fram hafði yfirhöndina gegn HK frá upphafi leiks og heimamenn skoruðu fyrstu fimm mörk leiksins. Framarar héldu öruggri forystu út fyrri hálfleikinn og leiddu að honum loknum, 18-13.

Heimamenn náðu átta marka forskoti í stöðunni 22-14 og sigur þeirra var í raun aldrei í hættu eftir það. Mestur varð munurinn níu mörk í stöðunni 34-25, en gestirnir klóruðu í bakkann í lokinn og niðurstaðan varð fjögurra marka sigur Fram, 39-35.

Ívar Logi Styrmisson og Reynir Þór Stefánsson skoruðu átta mörk hvor fyrir Fram í kvöld, en þeir Aron Gauti Óskarsson, Hjörtur Ingi Halldórsson og Kristján Ottó Hjálmsson voru atkvæðamestir fyrir HK með sex mörk hver.

Á sama tíma vann Afturelding góðan fimm marka sigur gegn Gróttu, 30-25. Gestirnir byrjuðu betur og náðu fjögurra marka forystu þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður, en munurinn var kominn niður í eitt stig þegar flautað var til hálfleiks, staðan 12-13.

Afturelding tók hins vegar völdin í síðari hálfleik og vann að lokum fimm marka sigur, 30-25. Þorsteinn Leó Gunnarsson var markahæsti maður heimamanna með sex mörk, en Jakob Ingi Stefánsson skoraði átt fyrir Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×