Handbolti

Lærisveinar Arons tóku risaskref í átt að Ólympíuleikunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Kristjánsson og hans menn eru einu skrefi frá sæti á Ólympíuleikunum.
Aron Kristjánsson og hans menn eru einu skrefi frá sæti á Ólympíuleikunum. Getty/Sven Hoppe

Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í bareinska karlalandsliðinu í handbolta eru komnir í úrslit undankeppninnar um sæti á Ólympíuleikunum í París á næsta ári eftir nauman eins marks sigur gegn Katar í dag, 30-29.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn jafn og spennandi frá upphafi til enda. Bareinska liðið hefur í gegnum tíðina oft mátt þola tap gegn því katarska í stórum leikjum og má þar nefna fjögur töp í úrslitum Asíukeppninnar á síðustu fimm árum.

Lærisveinar Arons höfðu eins marks forystu í hálfleik, 15-14, og munurinn var einnig aðeins eitt mark þegar flautað var til leiksloka. Bareinska liðið skoraði sigurmarkið á lokasekúndum leiksins og tryggði sér þar með nauman sigur, 30-29, og um leið sæti í úrslitum undankeppninnar.

Barein mætir Japan eða Suður-Kóreu í leik um laust sæti á Ólympíuleikunum, en Japan og Suður-Kórea mætast í dag og er sá leikur nú þegar hafinn. Dagur Sigurðsson er þjálfari japanska liðsins og því gæti það farið svo að tveir íslenskir þjálfarar berjist um eitt laust sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×