„Í fréttum er þetta helst. Ég er með hnút í maganum þegar ég deili því með ykkur að elsku besta og fallega íbúðin okkar er komin á sölu, hér hefur okkur liðið stórkostlega.
Vesturbrúin okkar er dásamleg íbúð, með rúmgóð svefnherbergi og dásamlegan pall í hásuður - erfitt að finna betri staðsetningu. Ekki tilbúin að kveðja en hugsa um tækifærin sem bíða okkar á nýjum stað, ef allt gengur upp,“ skrifar Fanney í færslu á samfélagsmiðlum.

Mjúkir litir og klassísk hönnun
Fallegir hönnunarstólar og aðrir tímalausir innanstokksmunir prýða íbúðina.
Við borðstofuborðið má sjá klassíska hönnun frá danska hönnuðinum Hans J. Wegner frá árinu 1949. Stóllinn CH24 eða Wishbone chair. Stóllinn hefur notið mikilla vinsælda á íslenskum heimilum síðastliðin ár og er hann framleiddur í mismunandi litum og viðartegundum.
Astep ljósið úr smiðju Gino Sarfatti frá árinu 1950 setur punktinn fyir i-ið í borðstofunni.
Þá má sjá stóla frá danska vöruhúsinu Norr 11, Elephant-stóllinn (2017) og Big Big chair (2020), hannaðir af dönsku hönnuðunum, Kristian Sofus Hansen og Tommy Hyldahl.

Eignin er á fyrstu hæð við Vesturbrú 1 í Garðabæ og er um 126 fermetrar að stærð.
Íbúð er búin þremur svefnherbergjum og einu baðherbergi. Stofa og borðstofa er í samliggjandi og björtu rými með gólfsíðum gluggum. Útgengt er úr rýmiinu á stóra og skjólgóða verönd í suðvestur.
Í eldhúsi er snyrtileg eikarinnrétting sem hefur verið lökkuð svört og með stein á borðum. Rúmgóður borðkrókur er í enda eldhúss með björtum glugga.




Nánari upplýsingar um eignina má finna á fasteignavef Vísis.