Erlent

Á­kæra banda­ríska her­manninn sem flúði yfir til Norður-Kóreu fyrir lið­hlaup

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Þorpið Panmunjon er víggirt og krökkt af hermönnum sem standa sitt hvoru megin við landamæri Norður og Suður-Kóreu.
Þorpið Panmunjon er víggirt og krökkt af hermönnum sem standa sitt hvoru megin við landamæri Norður og Suður-Kóreu. Getty/Chung Sung-Jun

Bandarískur hermaður sem flúði yfir landamæri Suður-Kóreu, yfir til Norður-Kóreu, hefur verið ákærður fyrir liðhlaup, misneytingu og vörslur barnakláms. Norður-Kóreumenn handsömuðu hermanninn eftir liðhlaupið í júlí á þessu ári en slepptu honum eftir tvo mánuði.

Hermaðurinn, hinn 23 ára gamli Travis King, sinnti herskyldu í Suður-Kóreu en var í kynningarferð á hinu svokallaða sameiginlega öryggissvæði í þorpinu Panmunjom við landamærin. Herinn ætlaði að senda Travis heim til Bandaríkjanna en hann hafði þá áður verið handtekinn í Suður-Kóreu fyrir eignaspjöll. Í kynningarferðinni tókst honum að sleppa.

Eins og fyrr segir héldu Norður-Kóreumenn hermanninum í tvo mánuði og tóku Bandaríkjamenn við honum í september á þessu ári. Samkvæmt NBC er lítið vitað hvernig komið var fram við Travis í varðhaldi Norður-Kóreumanna en hann er sagður hafa verið við góða heilsu eftir mánuðina tvo.

Ákæran gegn hermanninum er í átta liðum. Auk liðhlaups er Travis ákærður fyrir misneytingu með því að hafa neytt ungmenni til framleiðslu barnakláms á samfélagsmiðlinum Snapchat. Þá er hann einnig ákærður fyrir vörslur barnakláms og líkamsárás.

Lögmenn Travis segja að taka verði öllum fréttum með fyrirvara og biður fólk að fordæma ekki gjörðir hans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×