Fótbolti

Hazard vildi ekki spila einhvers staðar einungis fyrir peningana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eden Hazard hefur leikið sinn síðasta leik á fótboltaferlinum.
Eden Hazard hefur leikið sinn síðasta leik á fótboltaferlinum. getty/Sebastian Frej

Eden Hazard lagði skóna á hilluna því hann naut þess ekki lengur að spila og vildi ekki spila einhvers staðar bara fyrir peningana.

Í síðustu viku greindi Hazard frá því að hann væri hættur í fótbolta, aðeins 32 ára. Hazard átti frábær ár hjá Lille og Chelsea en leiðin lá niður á við eftir að hann gekk í raðir Real Madrid 2018.

Eftir góðgerðarleik í gær, þar sem Hazard skoraði eitt mark og lagði upp þrjú, greindi hann frá ástæðu þess að hann hætti í fótbolta.

„Ég sagði alltaf að ég myndi hætta um leið og mér hætti að finnast gaman inni á vellinum. Ég vildi ekki spila einhvers staðar fyrir peningana,“ sagði Hazard.

„Þetta var besta lausnin. Ég naut þess ekki lengur að æfa og var ekki að spila lengur. Ákvörðunin var einföld. Þú getur ekki alltaf útskýrt allt í lífinu. Ég er sáttur við sjálfan mig og ánægður. Ég hef svo margt að gera utan fótboltans þannig að ég gat tekið þessa ákvörðun í friði.“

Hazard lék 126 leiki fyrir belgíska landsliðið og skoraði 33 mörk. Hann var annar í valinu á besta leikmanni HM 2018 þar sem Belgía vann til bronsverðlauna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×