Skoðun

Hug­leiðingar brjóstaskurðlæknis í Bleikum októ­ber

Þórhildur Halldórsdóttir skrifar

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum að núna er Bleikur október. Fatnaður , varasalvar, sápur, nælur og skartgripi má kaupa til styrktar málstaðnum, svo fátt eitt sé nefnt. Vinnustaðir, búðir og leikskólar eru skreyttir í bleikum lit, meira að segja Hallgrímskirkja er uppljómuð í bleiku. Það er frábært að sjá viðtökurnar í samfélaginu og allir vilja leggja sitt af mörkum, einstaklingar og fyrirtæki stór sem smá. Enda snertir málefnið því miður marga. Ég geri ráð fyrir því að fjármagnið sem Krabbameinsfélag Íslands fær út úr söfnuninni verði notað til góðs.

Ég sem óbreyttur starfsmaður á Landspítalanum sem vinn við þetta flesta daga vil þó staldra aðeins við og vekja athygli á tilgangi Bleiks októbers og Bleiku slaufunnar því einhvern veginn finnst mér að sá boðskapur sem er mikilvægastur týnist í allri þessari markaðsetningu.

Bleikur október og Bleika slaufan er alþjóðlegt tákn til að vekja athygli á brjóstakrabbameini og sýna þeim sem hafa greinst með brjóstakrabbamein samhug og stuðning.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein sem konur greinast með. Gera má ráð fyrir að 1 af hverjum 9 konum fái brjóstakrabbamein á lífsleiðinni. Á Íslandi greinast um það bil 260 konur á ári og tveir karlar. Almennt eru horfur góðar. Því fyrr sem meinið uppgötvast, því minni líkur eru á að það sé búið að dreifa sér og horfur því betri.

Í tilefni Bleiks októbers og Bleiku slaufunnar vil ég því hvetja konur til þess að fara í skimun, því skimun bjargar mannslífum. Ég vil að við hvetjum hvor aðra til að fara í skimun. Krabbameinsfélag Höfuðborgarsvæðisins hrinti nýverið af stað átaki sem heitir „Skrepp í skimun“, taktu þátt! Einnig vil ég hvetja konur og menn til reglulegrar sjálfskoðunar, ef þú tekur eftir breytingum eða áhyggjur vakna pantaðu þá tíma hjá lækni.

Sjáumst í skimun!

Höfundur er brjóstaskurðlæknir hjá Brjóstamiðstöð Landspítala




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×