Árásirnar beindust að flugvöllum nærri Berdíansk í suðurhluta Úkraínu og að flugvelli við Lúhansk, í austurhluta landsins.
Fregnir bárust af árásunum í nótt og sögðu rússneskir herbloggarar frá því að flugmenn hefðu fallið og að þyrlur hefðu orðið fyrir skemmdum. Sérsveitir Úkraínu sendu svo í morgun út yfirlýsingu þar sem því er haldið fram að níu herþyrlur hafi verið eyðilagðar. Því er einnig haldið fram að vöruskemma fyrir skotfæri hafi sprungið og að flugbrautir hafi orðið fyrir skemmdum.
Úkraínumenn eru sagðir hafa skemmt Ka-52 herþyrlur en þær eru meðal háþróuðustu hergagna Rússa og hafa reynst Úkraínumönnum skæðar í sókn þeirra í suðurhluta Úkraínu.
Þá segir í yfirlýsingunni, sem sjá má hér, að Rússar hafi misst tugi manna. Aðgerðin ber titilinn „Dragonfly“ eða Drekaflugan.
Áðurnefndir herbloggarar hafa sagt að Úkraínumenn hafi notað fjölmargar eldflaugar við þessar árásir. Þessir bloggarar hafa haldið því fram að eldflaugarnar hafi verið allt að fjörutíu talsins og að nokkrar þeirra hafi borið klasasprengjur.
Þá segja bloggarar að eldflaugarnar hafi verið bandarískar ATACMS-eldflaugar, sem Úkraínumenn fengu nýverið frá Bandaríkjunum. Það hefur þó ekki verið staðfest og er ekki nefnt í yfirlýsingu sérsveita Úkraínu. Myndefni af klasasprengjum sem sprungu ekki, rennir þó stoðum undir það að um sé að ræða fyrstu ATACMS-árásina sem vitað er af.
Russian Fighterbomber aviation channel says something happened to some Russian airfield last night that is the most serious blow to the army aviation in the war. He also says that it was done with ATACMS.https://t.co/rkdu8fliOY pic.twitter.com/kg7qylQd6L
— Dmitri (@wartranslated) October 17, 2023
ATACMS stendur fyrir Army Tactical Missile System og tilkynnti Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, í september að slíkar eldflaugar yrðu sendar til Úkraínu, en Úkraínumenn hafa beðið um þær allt frá því stríðið hófst.
Sjá einnig: Biden lofar Selenskí nýjum eldflaugum
ATACMS drífa allt að þrjú hundruð kílómetra en hægt er að skjóta þeim með HIMARS-vopnakerfum sem Úkraínumenn hafa fengið frá Bandaríkjamönnum og Bretum.
Storm Shadow og Scalp stýriflaugar sem Úkraínumenn hafa fengið frá Bretum og Frökkum geta borið um 450 kílóa sprengihleðslu eru sagðar drífa rúma 250 kílómetra. Þeim er þó eingöngu hægt að skjóta með breyttum orrustuþotum.
Óljóst er hve margar ATACMS Úkraínumenn hafa fengið og munu fá frá Bandaríkjunum. Fregnir hafa borist af því að Bandaríkjamenn eigi tiltölulega fáar en Lockheed Martin framleiðir um fimm hundruð ATACMS á ári. Flestar þeirra eru þegar lofaðar öðrum bandamönnum Bandaríkjanna.