Innlent

Þing­mennirnir mættir til Þing­valla

Oddur Ævar Gunnarsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra stígur inn í rútu í morgun.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra stígur inn í rútu í morgun. Vísir/Vilhelm

Stjórnar­þing­menn og ráð­herrar ríkis­stjórnarinnar eru mættir til Þing­valla. Þangað ferðuðust þeir í rútu á vinnu­fund. For­sætis­ráð­herra segir fundinn hafa verið boðaðan fyrir löngu, ráð­herra­skipti verði ekki rædd þar.

Í morgun var greint frá því að þing­flokkar ríkis­stjórnar­flokkanna þriggja, Fram­sóknar, Sjálf­stæðis­flokksins og Vinstri grænna, ætluðu að funda sam­eigin­lega á Þing­völlum í dag. Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, segir að þar verði ýmis mál rædd.

„Það er nú gaman að segja frá því að þetta er dagur sem var á­kveðinn fyrir löngu síðan, löngu fyrir af­sögn fjár­mála-og efna­hags­ráð­herra. Þetta er vinnu­dagur þing­flokka stjórnar­flokkanna, sem er nú hefð fyrir og við erum að fara að ræða ýmis mál og þing­veturinn fram­undan.“

Bjarni gaf fréttastofu ekki kost á viðtali í morgun.Vísir/Vilhelm

Næstu skref komi í ljós á morgun

Er búið að taka ein­hverjar á­kvarðanir um næstu skref?

„Það er nú bara þannig að það er ríkis­ráðs­fundur á morgun og þá koma næstu skref í ljós.“

Má búast við miklum hrókeringum í ríkis­stjórninni?

„Ég held það sé best að við bíðum morgun­dagsins til að sjá hvernig þetta endar.“

Telur þú og er það ljóst á þessu stigi að Bjarni Bene­dikts­son fari í ráð­herra­stól?

„Þetta eins og ég segi kemur allt í ljós á morgun á ríkis­ráðs­fundi. Þessi ríkis­stjórnar­fundur snerist nú um ýmis önnur mál, þannig að við vorum ekki að ræða þau hér.“

Sigurður Ingi í rútunni í morgun.Vísir/Vilhelm

Segir stöðu ríkis­stjórnarinnar sterka

Katrín segir að hún telji stöðu ríkis­stjórnarinnar sterka þrátt fyrir at­burði síðustu daga. Síðustu dagar hafi verið notaðir til að ræða verk­efnin fram­undan.

„Við höfum auð­vitað notað þessa daga til að ræða verk­efnin fram­undan, setja þau niður með skýrari hætti. Þannig að ég tel að við stöndum bara nokkuð styrkum fótum,“ segir Katrín.

Það hefur verið gagn­rýnt af stjórnar­and­stöðunni að þú hafir staðið ansi þétt við bakið á fjár­mála­ráð­herra í allri orra­hríðinni um Ís­lands­banka, hvernig myndirðu svara þeirri gagn­rýni?

„Já, að sjálf­sögðu og það má eigin­lega segja það um ríkis­stjórnina alla, að við höfum gert það. enda tel ég að við höfum fylgt ráðum, bæði okkar stofnana og þeirra sem um þessi mál höndala innan stjórnar­ráðsins og ég tel að þau ráð hafi verið gefin eftir bestu vitund. Þannig að ég tel að það sé nú staðan í þessu máli.“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra á leið í rútuna. Vísir/Vilhelm

Starsmenn á vegum Framsóknarflokksins ferja veigar í rútuna.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×