Fótbolti

Sjáðu hetju­dáðir mark­varðarins Giroud

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Markvörðurinn Giroud hélt hreinu.
Markvörðurinn Giroud hélt hreinu. Matteo Ciambelli/Getty Image

Framherjinn og markvörðurinn Olivier Giroud reyndist hetja AC Milan þegar liðið lagði Albert Guðmundsson og félaga í Genoa í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, í gærkvöld. 

AC Milan vann 1-0 sigur þökk sé marki Christian Pulisic undir lok venjulegs leiktíma. Það var hins vegar það sem gerðist í uppbótartíma sem vakti heimsathygli. Markvörðurinn Mike Maignan rauk þá út úr marki sínu og endaði með að tækla tvo leikmenn Genoa, þar á meðal Albert.

Fékk Maignan í kjölfarið rauða spjaldið og þar sem Mílanóliðið var búið með allar skiptingar sínar í leiknum voru góð ráð dýr. Hinn 37 ára gamli Giroud tók það því að sér að fara í mark og stóð sig svo sannarlega með prýði.

Hann varði til að mynda meistaralega þegar hann kom út úr marki sínu og kom í veg fyrir að leikmenn Genoa næðu skot að marki. Það var þó ekki það eina sem gerðist eftir að Giroud fór í mark en Albert átti skot í stöng. Þá fékk Josep Martínez, leikmaður Genoa, sitt annað gula spjald og þar með rautt á 103. mínútu leiksins.

Ævintýralegur endir á leik sem endaði 1-0 AC Milan í vil. Mílanóliðið er nú á toppi Serie A með 21 stig að loknum 8 leikjum. Genoa er í 15. sæti með 8 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×