Innlent

Keyrði á 84 í nágrenni skóla og bíður ákæru

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Ekki liggur fyrir við hvaða skóla maðurinn keyrði og tengist myndin því fréttinni ekki beint.
Ekki liggur fyrir við hvaða skóla maðurinn keyrði og tengist myndin því fréttinni ekki beint. vísir/vilhelm

Maður á yfir höfði sér ákæru eftir að hafa keyrt á 84 kílómetra hraða í nágrenni grunnskóla, þar sem leyfður hámarkshraði er 30. 

Um er að ræða grófasta tilvikið við hraðamælingar lögreglu í ágúst og september. 

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni voru um 750 ökumenn staðnir að hraðakstri og voru sektaðir fyrir vikuð. Ökumaðurinn sem keyrði á 84 á hins vegar yfir höfði sér ákæru eins og áður segir.

Lögregla er jafnan við umferðareftirlit þegar grunnskólar hefja göngu sína á nýjan leik eftir sumarleyfi.

„Mældi sérstakur myndavélabíll embættisins hraða ökutækja við á fjórða tug grunnskóla, eða í næsta nágrenni þeirra (gönguleiðir skólabarna) víða í umdæminu í bæði ágúst og september,“ segir í tilkynningunni.

„Lögreglan minnir ökumenn, enn og aftur, á að aka varlega, ekki síst í námunda við skóla enda margir þar á ferli, m.a. nýir vegfarendur sem hófu skólagöngu í sumarlok.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×