Þar segir að nefndin hafi þann 14. september síðastliðin ákveðið á nefndarfundi að bíða með útgáfu bráðabirgðaskýrslu. Enn væri verið að afla gagna og vinna úr þeim.
Áður hafði nefndin sagt við fréttastofu að skýrslunnar væri að vænta í ágúst. Vélin TF-KLO hafði innanborðs tvo starfsmenn Náttúrustofu Austurlands auk flugmanns og voru þeir við reglulegar hreindýratalningar þegar slysið varð.
Samkvæmt flugáætlun átti vélin að fljúga sjónflug frá Egilsstaðaflugvelli um Snæfell, Hraundali og Vestur-Öræfi og koma aftur til Egilsstaða eftir fjórar klukkustundir. Vélin tók á loft frá Egilsstöðum kl. 13:29 og hefði samkvæmt flugáætlun átt að koma til baka kl. 17:29.
Tæpum hálftíma fyrir þann tíma, klukkan 17:01, nam Landhelgisgæslan boð frá neyðarsendi flugvélarinnar. Þegar engin svör bárust frá flugvélinni hófst umfangsmikil leit að henni. Á áttunda tímanum þann 9. júlí töldu flugmenn áætlunarflugvélar Icelandair til Egilsstaða sig síðan sjá flak flugvélarinnar við Sauðahnjúk, sem reyndist rétt.
Rannsókn flugslysa lýtur nákvæmum alþjóðlegum reglum og fer fram á vettvangi Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Hún hefst um leið og tilkynning um flugslys berst nefndinni.
Vettvangurinn er rannsakaður og gagna aflað og stutt viðtöl tekin. Eftir það hefst svo kölluð frumrannsókn sem getur staðið yfir í nokkrar vikur, jafnvel tvo mánuði.
Sú rannsókn stendur enn yfir. Að henni lokinni er gefin út bráðabirgðaskýrsla. Eftir útgáfu bráðabirgðaskýrslunnar hefst hin eiginlega rannsókn með úrvinnslu gagna, prófunum á kerfum, íhlutum og fleira.