Innlent

„Það er í lagi að vera for­vitinn, en komiði samt kurteisis­lega fram“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
David og Móey auk tveggja barna þeirra.
David og Móey auk tveggja barna þeirra. Aðsend

David Telusnord, íbúi í Kópavogi, biðlar til fólks að koma fram af virðingu eftir að hafa lent í leiðinlegu atviki í sturtuklefanum í Breiðholtslaug í dag sem lyktaði af kynþáttafordómum. Eiginkona hans og barnsmóðir segir atvikið ekki eitthvað sem hún vilji bjóða börnum þeirra, sem einnig eru dökk á hörund, upp á.

David segist hafa verið að koma upp úr sundi með vini sínum þegar íslenskur maður í sturtuklefanum segir við þá „What's up Africa?“ Honum hafi brugðið og spurt hvers vegna maðurinn héldi að hann sé frá Afríku og bætir við að fordómafullt sé að gera ráð fyrir slíku.

Maðurinn hafi þá sagt, „Skoðanir eru  bara eins og rassgöt, við erum öll með þær.“ Í kjölfarið hafi leiðinlegar rökræður orðið sem ekki bættu úr skák. David segist furða sig á því að enginn hafi gripið inn í þrátt fyrir að margir hafi verið á staðnum. Þá segist hann vonsvikinn á framkomu mannsins en reynsla hans sem svartur maður á Íslandi hafi fram að þessu verið góð. 

Móey Pála Rúnarsdóttir eiginkona hans segir mikilvægt að vera á varðbergi og grípa inn í verði maður vitni að fordómafullum athugasemdum. „Við eigum tvö blönduð börn og þetta er ekki eitthvað sem ég vil bjóða þeim upp á,“ segir Móey í samtali við Vísi. 

David segir mikilvægt að fólk gæti að viðhorfi sínu til allra innflytjenda, ekki bara svartra. „Það er allt í lagi að vera forvitinn. En komið samt kurteisislega fram,“ segir David. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×