Fótbolti

Sjálfsmark Sergio Ramos tryggði Barcelona sigur

Siggeir Ævarsson skrifar
Sergio Ramos horfir vonsvikinn á eftir boltanum í netið
Sergio Ramos horfir vonsvikinn á eftir boltanum í netið Vísir/Getty

Barcelona settust í toppsæti spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar liðið lagði Sevilla í eina leik kvöldsins. Það var Sergio Ramos sem skoraði eina mark kvöldsins en þó í rangt mark.

Börsungar hafa farið vel af stað í upphafi móts og hafa enn ekki tapað leik en gert tvö jafntefli. Girona og Real Madrid eiga bæði möguleika á að taka toppsætið af þeim á ný en liðin mætast á morgun í Girona.

Endurkoma Ramos til Sevilla hefur ekki farið af stað eins og hann hefði sennilega sjálfur kosið. Þetta var aðeins annar leikurinn sem hann nær að taka þátt í og þá var brotist inn á heimili hans fyrr í mánuðinum.

Ramos, sem fæddur er árið 1986, hóf ferilinn með Sevilla áður en hann fór til Real Madrid þar sem hann lék 469 deildarleiki en er nú kominn aftur heim til Sevilla þrátt fyrir að hafa fengið gylliboð annars staðar frá.

Hann er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Barcelona, erkifjendum Real Madrid, sem skemmtu sér konunglega þegar hann stýrði fyrirgjöf Lamine Yamal í eigið mark.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×