Þetta kom fram á fréttamannafundi ríkislögreglustjórans Anders Thornberg í morgun þar sem hann ræddi mikla aukningu ofbeldisverka í landinu sem rakin eru til átaka innan og milli glæpagengja.
Thornberg sagðist þar hafa sérstakar áhyggjur af þeim börnum og ungmennum sem ganga til liðs við glæpagengin. „Það eru börn sem sjálf hafa samband við gengin til að drepa,“ sagði ríkislögreglustjórinn. „Börn eiga að hafa trú á framtíðina. Þau eiga ekki að óska þess að verða morðingjar.“
Miskunnarlaus glæpagengi
Á fréttamannafundinum kallaði hann glæpagengin „miskunnarlaus“ og sagði þau leita skipulega að ungmennum og fá þau til að fremja glæpi. „Þessi nýliðun heldur áfram og hana verður að stöðva,“ segir Thornberg. Hann segir þó lítið benda til að ofbeldisöldunni muni linna á næstunni. Líklegt sé að árásirnar verði fleiri áður en tekst að snúa þróuninni við.
Árásirnar nú tengjast flestar hinu svokallaða Foxtrot-glæpagengi. Svíar vöknuðu í gær upp við fréttir af því að 25 ára kona hafi látist í sprengjuárás í íbúahverfi fyrir utan Uppsali. Hún var nágranni manns sem tengist Foxtrot-glæpagenginu og var hún því ekki skotmark árásarinnar.
Þrjú hundruð í varðhaldi
Thornberg segir að lögreglan vinni áfram markvisst að því að kveða niður ofbeldisölduna. Það sem af er ári hafi þrjú hundruð manns, sem eru taldir tengjast glæpagengjunum, verið hrepptir í gæsluvarðhald vegna vopnalagabrota.
Hann segir sömuleiðis að lögregla ætli sér að auka samstarf við sænska herinn sem geti meðal annars sinnt eftirliti og greiningu.
Tólf hafa verið drepin í átökum glæpagengja það sem af er september. Mörg þeirra eru undir lögaldri.
Staðan grafalvarleg
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi þar sem hann ræddi stöðuna í sænsku samfélagi vegna stríðs glæpagengjanna.
„Nú verða börn og saklausar manneskjur fyrir þessu grófa ofbeldi. Ég get ekki undirstrikað nægilega mikið hvað staðan er alvarleg. Þessi staða hefur aldrei áður verið upp í Svíþjóð. Hvergi í álfunni er staðan þessi,“ sagði Kristersson.