Viðskipti innlent

Verður nýr fram­­kvæmda­­stjóri eftir skipu­lags­breytingar hjá Arion

Atli Ísleifsson skrifar
Birna Hlín Káradóttir.
Birna Hlín Káradóttir. Arion banki

Nýtt skipurit tekur gildi í dag hjá Arion banka með nýju sviði reksturs og menningar. Birna Hlín Káradóttir, sem gegnt hefur starfi yfirlögfræðings bankans frá árinu 2019, mun stýra sviðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Hið nýja svið mun taka yfir ýmis verkefni sem áður tilheyrðu öðrum sviðum auk þess sem nýtt umbreytingarteymi verði hluti af sviðinu. 

„Markmið breytinganna er aukið samstarf stoðsviða, aukin skilvirkni í rekstri, markviss stýring umbreytingarverkefna og enn skýrari fókus á þjónustu og upplifun viðskiptavina. Auk þess mun sviðið gegna lykilhlutverki í áframhaldandi þróun og mótun fyrirtækjamenningar Arion banka. Undir rekstur og menningu falla mannauður, viðskiptaumsjón, rekstrarumsjón, umbreytingar og lögfræðiþjónusta.

Birna Hlín Káradóttir, sem gegnt hefur starfi yfirlögfræðings Arion banka frá árinu 2019, tekur við starfi framkvæmdastjóra rekstrar og menningar. Stofnun sviðsins kallar ekki á breytingar á framkvæmdastjórn þar sem Birna Hlín hefur setið í framkvæmdastjórn Arion banka frá árinu 2020.

Birna Hlín hefur mikla reynslu af störfum á fjármálamarkaði og hefur gegnt starfi yfirlögfræðings hjá Fossum mörkuðum, Straumi fjárfestingarbanka og Straumi-Burðarás fjárfestingabanka auk Arion banka. Hún hefur kennt lög um fjármálamarkaði o.fl. í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands, setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja og félagasamtaka hérlendis og erlendis. Birna Hlín er með AMP-gráðu frá IESE Business School í Barcelona og lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er með málflutningsréttindi og próf í verðbréfaviðskiptum,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×