Margir af þekktustu ferðamannastöðum landsins eru í Sveitarfélaginu Hornafirði og nægir þar til dæmis að nefna Skaftafell, Jökulsárlón og svo alla jöklana. Á sama tíma og mikill fjöldi ferðamanna heimsækir allar náttúruperlurnar í Hornafirði hefur Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri áhyggjur af stöðu mála þegar kemur af öryggisinnviðum ef eitthvað stórt gerist, ekki síst hvað varðar heilbrigðiskerfið og löggæslu.
En hvað á Sigurjón nákvæmlega við?
„Við erum með til dæmis með heilbrigðisstofnun hér, sem er þriggja lækna stöð, sem miðast við 2.500 íbúa eða svo en á hverri einustu nóttu sofa 2.500 ferðamenn bara á gististöðum og hótelum hérna í sveitarfélaginu. Þá er ótalið þeir, sem eru á eigin vegum og eru til dæmis í ferðavögnum eða tjöldum. Og þá er íbúafjöldinn orðin mun meira en tvöfaldur og síðan er þá ótalið allur sá fjöldi, sem heimsækir okkur eða keyrir í gengum sveitarfélagið,“ segir Sigurjón.
Sigurjón segir að hver heilvita maður sjái að fámennt heilbrigðiskerfi ráði ekki við stöðuna gerist eitthvað stórt.Þá sé sama staða uppi hvað varðar fyrsta viðbragð hjá lögreglu, slökkviliði eða björgunarsveit.
„Það er um langan veg að fara hjá okkur þegar einn atburður gerist og þá er viðbragðið orðið laskað á öðrum stað,“ segir Sigurjón um leið og hann vekur athygli á því að vinsælasti ferðamannastaðurinn í Sveitarfélaginu Hornafirði sé Jökulsárlón á Breiðamerkursandi en þar munu kom vel yfir milljón ferðamenn á þessu ári og því sé mikilvægt að fyrsta viðbragð þar eins og á öðrum ferðamannastöðum í sveitarfélaginu verði alltaf gott.
