Brand birti þriggja mínútna langt myndband á samfélagsmiðlum fyrr í kvöld þar sem hann þakkaði aðdáendum fyrir stuðninginn. Hann talaði undir rós en bað aðdáendur um að „taka upplýsingum með fyrirvara.“ Þá kvartaði hann einnig yfir fjölmiðlum, sagði þá vera spillta og minntist á svokallað „djúpríki.“ Brand kveðst ætla að tjá sig frekar um málið eftir helgi.
Þetta er í fyrsta skipti sem leikarinn tjáir sig eftir að ásakanirnar litu dagsins ljós. Hann þverneitar að hafa brotið á konunum og segist aldrei hafa stundað kynlíf án samþykkis.
Eins og fyrr segir hefur hann verið kærður til lögreglu vegna kynferðisbrots sem á að hafa verið framið í Lundúnum árið 2003. Breskir fjölmiðlar birtu í vikunni sögu fjögurra kvenna sem sökuðu hann um nauðgun, kynferðislega áreitni og andlegt ofbeldi yfir sjö ára tímabil, eða frá 2006 til 2013. Ein þessara kvenna var sextán ára gömul þegar hún segir Brand hafa brotið á sér. Breska ríkisútvarpið greindi frá.