Innlent

Heimta gögnin til baka og að vinnu verði eytt

Árni Sæberg skrifar
Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri G. Run við málverk af foreldrum sínum, sem stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma.
Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri G. Run við málverk af foreldrum sínum, sem stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækið G. Run í Grundarfirði hefur farið fram á það við Samkeppniseftirlitið að stofnunin skili öllum þeim gögnum sem fyrirtækið afhenti í tengslum við úttekt á stjórn­un­ar- og eigna­tengsl­um í sjáv­ar­út­vegi.

Morgunblaðið greinir frá þessu en það hefur bréf til Samkeppniseftirlitsins undirritað af Guðmundi Smára Guðmunds­syni, fram­kvæmda­stjóra G. Run, undir höndum.

Þar segir að í bréfinu sé þess krafist að öll gögn og allar upplýsingar verði afhentar fyrirtækinu auk þess að allri vinnu, sem eftirlitið hefur þegar unnið upp úr gögnunum, verði eytt.

Að öðrum kosti líti fyrirtækið svo á að eftirlitið hafi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála að engu. 

Greint var frá því í vikunni að nefndin hefði úrskurðað að fella bæri úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 19. júlí síðastliðinn um að beita útgerðarfélagið Brim hf. dagsektum upp á þrjár og hálfa milljón króna þar til fyrirtækið veitti eftirlitinu upplýsingar og gögn í tengslum við rannsókn á stjórnar- og eignatengslum í sjávarútvegi gegn verktakagreiðslu frá matvælaráðuneytinu.

Áfrýjunarnefndin taldi eftirlitið ekki hafa heimild til þess að beita valdheimildum sínum og úrræðum eins og dagsektum gegn Brimi til þess að ýta á eftir afhendingu gagna vegna slíkra athugana og skýrsluskrifa.

„Við þekkjum Svandísi“

Morgunblaðið hefur eftir Guðmundi Smára að fyrirtækið hafi gagnrýnt vinnu­brögð sam­keppn­is­yf­ir­valda og mat­vælaráðherra frá því að vinnan hófst. „Við þekkj­um Svandísi og vit­um ná­kvæm­lega hvert hún ætl­ar að fara,“ er haft eftir honum.

Hún sé í sinni pólitík en það sé fyrir neðan allar hellur að „apparat eins og Samkeppniseftirlitið“ taki þátt í þeirri pólitík ráðherra.


Tengdar fréttir

Vill hætta sam­starfi við mat­væla­ráðu­neytið

Forstjóri Brims hf. fagnar úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að dagsektir samkeppniseftirlitsins hafi verið ólögmætar. Samkeppniseftirlitið telur forsendur fyrir umdeildum samningi við matvælaráðuneytið brostnar.

Dag­sektir á hendur Brimi ó­lög­mætar

Úrskurðarnefnd samkeppnismála úrskurðaði í dag að fella bæri úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 19. júlí síðastliðinn um að beita útgerðarfélaginu Brim hf. dagsektum upp á 3,5 milljónir króna þar fyrirtækið veitti eftirlitinu upplýsingar og gögn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×