Í tilkynningu segir að félagið tilheyri efnisvinnslugeiranum (e. Basic materials) og sé 20. félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic í ár.
Félagið var stofnað árið 2017 með megináherslu á að finna gull og aðra verðmæta málma á Suður-Grænlandi, rannsaka og þróa þau svæði þar sem málma er að finna og vinna þessa málma úr jörðu.
„Verðmætasta eign Amaroq er Nalunaq svæðið, þar sem undirbúningur að vinnslu er langt kominn og vinnsluleyfi sem nær m.a. yfir Nalunaq gullnámuna sem þar var fyrir. Amaroq er einnig með leitar- og vinnsluleyfi á svæði, það stærsta á Suður-Grænlandi og nær það yfir tvö þekkt gullbelti á svæðinu. Eitt af meginmarkmiðum Amaroq Minerals er að byggja upp sjálfbæra námuvinnslu í samstarfi við íbúa Grænlands þar sem hefðir og menning samfélagsins eru höfð í heiðri,“ segir í tilkynningunni frá Nasdaq.

Haft er eftir Eldi Ólafssyni, forstjóra og stofnanda félagsins, að þetta ár sem skráð fyrirtæki á First North hafi sýnt að félagið sé á réttri leið til vaxtar. „Á þessum tíma höfum við fundið fyrir auknum áhuga fjárfesta á Amaroq, innlendum sem erlendum, og skráning á Aðalmarkað mun gera okkur enn betur kleift að undirbúa okkur undir framtíðarvöxt,“ segir Eldur.