Maðurinn er á fimmtugsaldri og rak veitingastaðinn Kebab House í Reykjanesbæ. Hann var ákærður fyrir að hafa kveikt í á tveimur mismunandi stöðum í húsnæðinu, annars vegar undir borði við kjötstand og grill og hins vegar í hillu undir hitabökkum hjá afgreiðsluborðinu.
Hann bar eldfim efni á svæðin og lagði eld að þannig að eldur breiddist út. Maðurinn var dæmdur sekur, meðal annars fyrir að hafa valdið eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu og yfirgripsmikið eignatjón á húsnæði veitingastaðarins en slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldsins.
Maðurinn bar fyrir sig að kviknað hefði í djúpsteikingarpotti. Rannsakendur töldu ljóst að ekki hefði kviknað í pottinum.
Krafðist bóta mánuði eftir tjón
Þá var maðurinn dæmdur fyrir að hafa gert tilraun til fjársvika. Hann fór um mánuði eftir brunann á fund með vátryggingarfélaginu Sjóvá og krafði félagið um greiðslu bóta vegna tjónsins.
Þá krafði hann félagið um bætur vegna rekstrarstöðvunar. Félagið hafnaði greiðslu bóta með vísan til þess að um íkveikju hafi verið að ræða.
Í úrskurði Landsréttar segir að það sé mat dómsins að framganga mannsins á fundi með fulltrúum tryggingafélagsins sanni, svo ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum, að maðurinn hafi gerst sekur um tlraun til fjársvika.