Þorgeir, sem á að baki nokkra Íslandsmeistaratitla á sínum ferli í pílukasti, sýndi snilldartakta og tryggði sér sæti í 8-manna úrslitum Úrvalsdeildarinnar og sló um leið nýkrýnda Íslandsmeistarann í 301 og þrefaldan Íslandsmeistara í 501, Matthías Örn Friðriksson, úr leik.
Tilþrif kvöldsins átti Þorgeir í viðureign sinni gegn Kittu Einarsdóttir í 101 útskoti þar sem að hann hitti 20, þrefaldan 19 og tvöfaldan tólf og kláraði þar með fimmtán pílna legg. Tilþrifin má sjá hér fyrir neðan:
Þorgeir sýndi einstaka takta í öllum sínum leikjum þar sem hann var með þrjú stórglæsileg útskot fyrir 116, 101 og 127 öll gegn sitthvorum andstæðingnum. Eftir að hafa lent 2-0 undir gegn Atla Kolbeini Atlasyni í öðrum leik kvöldsins hrökk díselvélin í gang og sigldi Þorgeir sigrinum í höfn í lokaleik kvöldsins gegn Matthías Erni 3-1.
Fjórða kvöld Úrvalsdeildarinnar verður 11.október en þá fer fram E-riðill sem er sannkallaður dauðariðill. Í riðlinum mætast Karl Helgi Jónsson úr PFR, Hallgrímur Egilsson úr PFR, Óskar Jónasson úr Þór og Lukasz Knapik úr PFH.
Goðsögn hjá KR
Þorgeir var á sínum tíma nokkrum sinnum meistari með knattspyrnuliði KR og í viðtali sem tekið var við hann árið 2020 í samkomubanni mátti sjá aðstöðuna sem hann hefur komið upp í tengslum við pílukastið í bílskúrnum hjá sér.
Þá fór hann einnig yfir þróunina í pílukasti hér á landi. Óhætt er að mæla með áhorfi á þetta skemmtilega innslag svona í tilefni að tilþrifum Þorgeirs í gærkvöldi.