Erlent

Óttast að allt að tuttugu þúsund hafi látið lífið í Derna

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Heimamenn í Derna leita að lífsmarki í rústunum. 
Heimamenn í Derna leita að lífsmarki í rústunum.  AP Photo/Yousef Murad

Nú er óttast að átján til tuttugu þúsund manns hafi látið lífið í flóðunum í líbísku borginni Derna um helgina.

Borgarstjórinn Abdulmenam Al-Ghaithi segir að þetta mat sé byggt á eyðileggingunni sem orðið hafi á mörgum hverfum borgarinnar en hamfarirnar urðu í kjölfar mikils óveðurs sem leiddi til þess að tvær stórar stíflur brustu.

Staðfest tala látinna er enn fimm þúsund manns en ljóst að fleiri en 10 þúsund er enn saknað. Björgunarlið er nú nýkomið til borgarinnar og ljóst að þeirra bíður mikið verk. Strönd borgarinnar er full af braki, búslóðum og ónýtum bílum, auk fjölda líka. Óttast er að sjúkdómar fari fljótlega að skjóta upp kollinum í borginni en fyrir hamfarirnar bjuggu 100 þúsund manns í Derna.

Loftmyndir af Derna sýna glöggt hve eyðileggingin er gífurleg.Gerfihnattamynd ©2023 Maxar Technologies/AP

Í Líbíu ríkir í raun borgarastríð og er landið með tvær ríkisstjórnir, aðra í höfuðborginni Trípólí en hina í austurhluta landsins. Stríðandi fylkingar hafa nú ákveðið að vinna saman að björgunarstörfum í Derna og hefur skólastarfi verið aflýst næstu tíu dagana hið minnsta, svo hægt sé að nota skóla sem húsaskjól fyrir þá sem misst hafa allt sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×