Litagleðin naut sín sannarlega í ár eins og áður og voru munstraðar flíkur sömuleiðis áberandi. Þá voru þingmenn margir hverjir í íslenskri hönnun. Blaðamaður fékk að heyra nánar frá fatavali nokkurra þingmanna.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-,orku- og loftslagsráðherra, klæddist dökkgráum jakkafötum með blátt bindi í stíl við flokk sinn, Sjálfstæðisflokkinn. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, var í grænu setti frá íslenska hönnuðinum MAGNEU og rúllukraginn undir er frá Issey Miyake. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, klæddist í skyrtu frá danska hönnuðinum Stine Goya og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, í dökkbláum jakkafötum með rauðtóna bindi og regnbogasokkum sem voru skilaboð um fjölbreytileikann.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra klæddist skóm frá íslenska skómerkinu Kalda, pilsi frá versluninni Sentrum á Egilsstöðum og jakkinn er frá danska merkinu samsoe samsoe og keyptur í versluninni GK Reykjavík. Í fyrra var Áslaug svartklædd frá toppi til táar en bleiki liturinn hefur náð til hennar í ár enda ómótstæðilegur að mati margra tískuunnenda.

Viðreisnarkonan Hanna Katrín valdi svart og hvítt og flokksbróðir hennar Sigmar Guðmundsson var í bláum jakkafötum með blátt bindi í stíl. Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, skartaði ljósbleikum jakka og skóm í stíl. Að hennar sögn fór hún innarlega í fataskápinn sinn og náði í sitt lítið af hverju af gömlum flíkum. Skórnir eru sjö ára gamlir frá Stewart Weitzman. Pilsið er gamalt og gott taupils sem hefur hann eiginleika að geta stækkað og minnkað með eigandanum. Jakkinn er fimm ára frá Esperit. Skyrtan er um fimmtán ára gömul, vel nýtt og mikið tekin að sögn Þorgerðar. Regnbogaeyrnalokkarnir eru svo íslensk hönnun frá Dálæti.



Samfylkingarkonan Kristrún Frostadóttir var í dökkfjólublárri dragt í 70's stíl sem hefur verið einstaklega vinsæll í ár. Logi Einarsson var í dökkbláum jakkafötum með rautt bindi og sömuleiðis Jóhann Páll Jóhannsson í bakgrunni. Dagbjört Hákonardóttir mætti á sína fyrstu þingsetningu í gráu og hvítu ullarsetti frá íslenska hönnuðinum Magneu og appelsínugula lokka frá Hlín Reykdal. Hvort tveggja úr Kiosk Granda. Skórnir hennar eru úr 38 þrepum.


Sjálfstæðiskonan Diljá Mist Einarsdóttir klæddist sögulegri flík úr fjölskyldu sinni. Á Instagram síðu sinni skrifar hún:
„Af þessu hátíðlega tilefni fékk ég lánað upphlutsvesti mömmu minnar, vesti sem hún hefur klæðst við sérstök tilefni. Vestið var áður í eigu Bryndísar Kristjánsdóttur, eiginkonu Jóns úr Vör, en hún tengdist móðurömmu minni Susie í gegnum Kristniboðssambandið.“



Katrín Jakobsdóttir forsetisráðherra og formaður Vinstri grænna klæddist grásilfruðum kjól sem hún keypti hjá íslenska hönnuðinum Steinunni. Þá var hún með silfurlitað hálsmen í stíl, í svörtum jakka og svörtum skóm. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra klæddist svörtum og hvítum kjól með blómamunstri og dökkbláum jakka við. Þá valdi Birgir Ármannson, Sjálfstæðismaður og forseti Alþingis, blá jakkaföt og blátt bindi, í stíl við lit Sjálfstæðisflokksins.




